Bronzebird: Bloggið sem finnst rigning misgóð

Jæja, spurning um hvað blogg dagsins verður, það er úr mörgu að velja. Á maður að velja að blogga um moggann sem virðist vera með pólverja í innslættinum? Nahh.. Á maður að blogga um skort á almennri kurteisi í þjóðfélaginu? Njeee... Það þarf að vera eitthvað sem grípur lesendur sem villast inn á síðuna og allt að því neyðir þá til að tjá sig! Eitthvað svo magnþrungið og stórbrotið að fólk fær ekki staðist að lesa hvert einasta orð, helst tvisvar, sumir þrisvar.

Með það að leiðarljósi sit ég hér og hugsa, stunda heilabrot af mikilli ákefð og reyni að finna þetta merkilega umfangsefni. Svo verð ég svo eirðarlaus við setuna að ég tek eftir hlutum sem ég hef ekki tekið eftir áður, en ég einbeiti mér svo mikið að það skapast tæplega minning um þá. Eitthvað sá ég við símann minn, eitthvað fann ég við stólinn, heyrði eitthvað hljóð sem ég kannast ekki við. Ég loka þetta allt úti. Mér finnst sem ég horfi niður eftir löngum og dimmum göngum, við endann sé ég skært ljós. Ég finn að í ljósinu bíður mín þetta líka frábæra umræðuefni, eitthvað sem mun sjá til þess að bloggið mitt verður engu öðru líkt. Bloggið mitt verður viðmiðunarblogg, eitthvað sem allir bera sitt blogg saman við.

Verst að birtan er of skær og ég of langt í burtu, ég hreinlega sé ekki hvað er falið í ljósinu. Ég reyni að komast nær, en í hvert skipti sem ég tek skref í áttina að ljósinu fjarlægist það. Mér dettur í hug að nota öfuga sálfræði, geng frá ljósinu! NEI! Það fjarlægist enn, reyndar hægar, en fjarlægist samt. Ég reyni að minnka birtumuninn, kveiki á ljósum þar sem ég er í göngunum í von um að það hjálpi mér einhvern vegin að sjá í gegnum ofbirtuna. Það virkar ekki, hitt ljósið verður enn skærara með hverju ljósi sem ég kveiki, ég er engu nær!

Ég sest niður, alveg uppgefinn og útpældur. Í leitinni að leiðum til að komast að enda gangnanna hef ég gleymt upprunalegu markmiði mínu, að finna eitthvað frábært efni til að blogga um. Ég velti stöðunni fyrir mér, allur þessi tími farinn til einskis, allt þetta erfiði. Ég legg andlitið í greipar mér og loka augunum, ég hef ekki það sem þarf til að berjast í þessarri orustu. Hugmyndaflugið er komið í jólafrí, þýðir það dauða bloggsins fram á nýja árið? Þessi hugsun vekur upp hjá mér hroll, ég stekk á fætur og opna augun, tilbúinn að takast á við áskorunina og finna eitthvað til að blogga um. Það verður kannski ekki þetta frábæra efni sem ég hafði gert mér vonir um, en ég skal gefa því allt sem ég á og gera það eins gott og mögulegt er.

Allt í einu tekst ég á loft og þýt af stað í lausu lofti, það er eins og einhver hafi troðið ryksugu á endann á göngunum. Áður en ég veit af er ég kominn í ljósið, stend augliti til auglitis við hugmyndina, meistaraverkið, viðmiðunarbloggið. Eftir að hafa skoðað það í nokkurn tíma kemst ég að því að ég vissi allan tímann hvað það var, það var í hausnum á mér hverja einustu sekúndu af baráttunni. Það er bara ekkert svo sérstakt, það er ekki lausnarinn, það er ekki það sem ég hafði gert það að í hausnum á mér.

Hugmyndin, meistaraverkið, flýgur hægt í kringum mig, hring eftir hring. Það virðist vera að hæðast að mér, eins og þúsundum annarra rithöfunda sem hafa lent í svipuðum kringumstæðum. Hún hvíslar að mér að ég sé hvorki fyrsta né síðasta fórnarlambið, en enginn hafi séð sig í sömu mynd. Meistaraverkið hefur tekið á sig allra kvikinda form, hvort sem það er steinninn sem menn hafa barið hausnum utan í, ímyndaða snaran sem menn hafa hengt sig í, kletturinn sem þeir hafa klifið, hlauparinn sem þeir hafa elt eða konan sem þeir reyndu og reyndu að ná. Með miklu monti og smá votti af mikilmennskubrjálæði hvíslar hinn meinti lausnari að mér að ég sé öðruvísi, hann muni í raun og veru veita mér lausn. Ég hafi fundið það sem svo margir hafi leitað, snert það sem svo margir hafa reynt að grípa. Með þeim orðum þýtur hugmyndin burt, niður eftir göngunum og það er ein setning efst í huga mér þegar ég horfi á eftir henni.

"Takk, kæra ritblokk."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ohh, sveiðér! ég var svo spennt að lesa þetta! og svo las ég endann.

Þórdís Inga Þórarinsdóttir (IP-tala skráð) 6.11.2006 kl. 14:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband