Bloggað til að blogga?

Það eru ófá skiptin sem maður hefur lesið dálka í blöðum þar sem viðkomandi varð að mæta skilafresti en hafði greinilega ekki hugmynd um hvað hann átti að skrifa. Margir sem lenda í þessari stöðu fara auðveldu leiðina, vinsælu leiðina, skrifa um það að hafa ekkert að skrifa um. Kvarta jafnan undan því að þetta sé erfið tilfinning, undarlegt fyrir atvinnupenna að hafa ekkert að skrifa. Spurning hvort þetta fólk heldur að það séu bara áhugapennar sem þjást af ritblokk.

"Ég fæ borgað fyrir að skrifa, ég er undanþegin svona rugli. Ég er yfir þetta hafinn!"

Þetta er bara mín tilfinning þegar ég les suma þessa dálka. Reyndar finnst mér góðum dálkum hafa farið svolítið fækkandi undanfarið, kannski aðallega út af því að ég les mjög fáa dálka. Hins vegar les ég fáa dálka af því að ég les allt of marga leiðinlega dálka, sem aftur leiðir til þess að ég rekst á mjög fáa góða dálka. Er einhver farinn að sjá einhvers konar mynstur í þessu? Ég held að ég sé farinn að sjá eitthvað myndast hérna...

 

Nóg um það, nú skal snúið að sjónvarpinu.

So you think you can dance: Mikið svakalega eru þetta frábærir þættir! "Ædollið" á ekki roð í þessa snilld, þar sem lélegur dans er mun fyndnari en rammfalskur söngur. Sem dæmi mætti taka atriði úr fyrsta þættinum. Þar mætti 32 ára gamall maður með mömmu sína með sér (aldurstakmarkið er nota bene 30 eftir því sem ég hef heyrt, þannig að strax var ljóst í hvað stefndi). Hann hét einhverju nafni sem enginn man en vildi að sviðsnafnið sitt yrði "SEX", og þá erum við ekki að tala um íslensku töluna! Maðurinn var helvíti langt frá því að geta talist sexý, og dansinn var jafnvel lengra frá sömu skilgreiningu. Eftir að honum var sagt að hann ætti ekki heima í keppninni fór mamma hans að rífa sig við myndavélarnar, segjandi öllum heiminum að "SEX" væri bara víst sexy, thank you very much. Þegar ég hugsa út í það... Hann gæti vel hafa heitið Oedipus.

Margt í þessum þætti er hins vegar svo flott að maður situr í sófanum með hökuna á gólfinu, og þá er athyglin helst á breikurunum. Greinilegt að þeir hættu snemma í skóla og lærðu þar af leiðandi aldrei um hluti eins og þyngdarafl eða takmarkanir mannslíkamans! Mánudagar, hálf tíu, skylduáhorf!

 Hell's Kitchen: Úff... Hefur þetta fólk yfir höfuð borðað mat? Eitt er víst að það hefur sko ekki eldað mat! Þvílíkt samansafn af klaufum, óvitum og vitleysingum. Geta ekki einu sinni komið út einföldum forréttum, þó hvert og eitt sjái bara um hluta af þeim. Þeim er greinilega ómögulegt að vinna saman. Velti fyrir mér hvenær Gordon tapar sér endanlega og eldar eitthvert þeirra, vona að það sé ekki langt í það.

 Survivor: ÓJÁ! byrjar á mánudaginn og núna fundu þeir sko nýja leið til að skapa spennu og áhorf. Í fyrsta skipti í sögu þáttanna er skipt í ættbálka eftir kynþáttum! Þetta verður kynngimagnað, svo mikið er víst.

Er eitthvað annað í sjónvarpinu? Held ekki, nema íþróttir auðvitað, sem ég næ ekkert að horfa á af því að mér tekst að vera að vinna þegar hver einasta útsending er. Kannki að maður næli sér í gervihnött og fari að horfa á beinar útsendingar frá héraðsmóti í kúluspili frá Bandaríkjunum? Það ætti að vera á góðum tíma.

Þangað til næst Svalur


Nýtt útlit á síðunni!

Jæja, ákvað að breyta aðeins um útlit á síðunni þar sem ég rakst á helvíti töff þema. Annars er lítið að segja, minna að frétta og ekkert til að blogga um að sinni, þannig að kíkið bara á síðustu blogg :)

My Undying Love

In my dreams every single night;
Guarding my heart from sorrow and fright;
Guiding my soul from darkness to light;
My white, shining dove.

On my mind each waking hour;
Picking me up when the days get dour;
Guiding my feet, giving them power;
My angel above.

By my side through right and wrong;
Singing your soothing, comforting song;
When I feel weak, you'll be keeping me strong;
My undying love.

Vona að greinarskil fari að virka, annars eru semikommurnar þar sem ætti að koma (og vonandi kemur) línubil.

11. september

  • Jæja gott fólk, fimm ára afmæli þessa dags. Reyndar er þessi dagur miklu eldri, en ég held að það þurfi ekkert að útskýra þetta neitt frekar. Fór á United 93 á laugardagskvöldið, og það er sko sterk mynd! Mæli með henni fyrir alla og alla sem allir þekkja! Þetta er eiginlega skyldumynd, ef svo mætti að orði komast. Tilfinningarnar í myndinni eru svo sterkar að það hálfa væri hræðilegt, endirinn er svo átakanlegri en í nokkurri annarri mynd sem ég hef séð.
  • Ég er eins og flestir, man nákvæmlega hvar ég var og hvað ég var að gera þegar ég heyrði fyrst að flugvélar hefðu flogið á tvíburaturnana, og var örugglega ekki einn um að hugsa að þetta væri annað hvort grín eða þá einhverjar tvær smárellur. Ég man ennþá sjokkið þegar ég sá fyrst myndirnar af turnunum með reykinn flöktandi upp frá þeim. Og enn betur man ég eftir því að koma heim úr skólanum og horfa á turnana hrynja í beinni útsendingu. Ég held það hafi ekki verið fyrr en tveim dögum seinna sem maður fór að skilja hvað hafði gerst, hvað það þýddi og hvað myndi gerast eftir það. Ég man enn eftir svipbrigðum erlendra fréttamanna, bæði á staðnum og í stúdíóum, sér í lagi þeim bandarísku, sem reyndu að lýsa því sem fyrir augu bar og reyndu að útskýra fyrir heiminum hvað hafði átt sér stað. Enn þann dag í dag dáist ég að þessu fólki sem alveg örugglega þekkti einhvern sem vann annað hvort í eða við turnana, hvernig það hélt sér óbuguðum fyrir framan heimsbyggðina og kom öllu eins fagmannlega til skila og hægt var að gera, þó það væri undir þessum miklu geðshræringum og án efa hræðslu.
  • Að lokum vil ég senda hér út mínar samúðarkveðjur til allra sem einhvern misstu í árásunum, eða stríðunum eftir þær. Ég vil minnast allra þeirra saklausu borgara sem féllu, fyrst ellefta september og síðar á svo til hverjum einasta degi til dagsins í dag, og langt fram í framtíðina.
  • Síðasta línan verður einföld: Af hverju þurfti Bush að vera í forsetastól á þessum tíma?

Úrslit helgarinnar

  • Jæja, loksins rann helgin upp með nýrri umferð í enska, og úrslitin voru margslungin.
  1. Everton 3-0 Liverpool: Þarf að segja eitthvað meira um þetta? AJ með 2, kominn á rúllandi skrið. Vörnin hjá Liverpool ennþá í sumarfríi.
  2. Arsenal 1-1 Middlesbrough: Ennþá virkar Emirates eins og útivöllur fyrir Arsenal, og ekki kvarta ég! 6 gul spjöld á boro og 1 rautt, duglegir að sparka í vælarana!
  3. Bolton 1-0 Watford: Jájá, og Anelka í bolton næsta árið, er hann ekki 5 árum of ungur fyrir Allardyce?
  4. Chelsea 2-1 Charlton: Viti menn, Chelsea áhangendurnir fögnuðu Hasselbaink þegar hann skoraði! Flest við Chelsea finnst mér gersamlega óþolandi, en þetta er flott að heyra! Lampard klikkaði á víti, enda kominn algerlega í sama staðal og íslenska deildin, held að fh myndi ekki taka hann á fríu þessa dagana!
  5. Newcastle 1-2 Fulham: Allir sem vinna Newcastle fá punkt hjá mér, vonum bara að bullard sé ekki handónýtur. Gott hjá Parker samt að sýna áhyggjur, bæði í hálfleik og eftir leik, fair play to him. Leikmenn Newcastle héldu greinilega að leikurinn væri 80 mínútur, Fulham var með lengdina á hreinu.
  6. Sheffield Utd 0-0 Blackburn: 3 víti forgörðum á síðustu 20? Og þar að auki öll varin. Annars lítið að segja um þennan leik
  7. Portsmouth 1-0 Wigan: Portsmouth komið með 10 stig í fjórum leikjum og enn ekki búnir að fá á sig mark, Redknapp er alveg magnaður.
  8. Manchester United 1-0 Tottenham: Sko til, Giggsarinn kominn í besta form ævinnar og Ronaldo að sanna að hann er með hæfileikana til að verða langbestur, no doubt. Neville hljóp amk 20 km í leiknum, Eimreiðin komin á fulla ferð! Defoe sýndi og sannaði af hverju hann átti aldrei að vera í hm-hópnum, maðurinn getur ekki skorað nema það sé skotið í hann, sbr Andorra leikinn!
  9. West Ham 1-1 Aston Villa: Tevez og Mascherano byrja á bekknum, sterk yfirlýsing það! annars er ekkert um þetta að segja nema að án Martin O'Neill væri nú þegar búið að dæma Villa niður um deild! Jú og Petrov byrjaður hjá Villa, hann er alger klassi, mark my word!

Þetta er nóg í bili, kemur annað blogg á eftir um almenna hluti. Það er alla vegna markmiðið


Jæja, lausn á greinarskilavandamálinu fundin!

  1. Þar sem ég er orðinn alveg ráðþrota nota ég bara þessa lausn, "raðaðan lista"! Ónei, maður deyr nú ekki aaaaalveg ráðalaus.
  2. Fyrsta mál á dagskrá. Getum við ekki breytt tímanum á Íslandi þannig að beinar útsendingar (og aðrar útsendingar) frá bandaríkjunum séu nú á örlítið skárri tíma? Orðinn dauðþreyttur á nba leikjum klukkan 2 að nóttu til, RockStar klukkan 1 og svo framvegis. Reyndar getur maður nú alveg lifað á 3-4 tíma svefni, en það er ekkert allt of gaman.
  3. Þá er komið að því, baunarnir mættir á klakann, tilbúnir í stríð. Eða það vona ég alla vegna þeirra vegna, því ef minn grunur reynist réttur munu tæklingarnar fljúga og danirnir líklegast líka! Vona bara að strákarnir reyni sitt allra besta og takist að stríða þeim almennilega.
  4. RockStar í gær: Úff... hvað með það þótt dilana hafi sungið með smá bágt í fætinum? ég veit ekki um marga sem syngja með kálfanum, en þið? Hélt ekki! Svo leit hún bara út eins og kalkúni hoppandi um á öðrum fætinum með hendurnar svona bognar. Magni var töff, kann að svara almennilega fyrir sig eins og hann hefur sýnt undanfarið. Ég er gersamlega búinn að fá nóg af Lukasi, gaurinn getur sungið en nei, hann ákveður trekk í trekk að jarma! Meira að segja rollur jarma ekki svona almennilega, og ég man ekki til  þess að þátturinn heiti RockStar: Bleat Your Heart Out. Toby var góður, bjó til allt of grípandi lag og ég er ennþá að raula það! Þó að hann og Storm eigi nú ekki mikla möguleika í þetta var gaman að þeim. Storm má nú samt hætta að stunda endalaust kynlíf á sviðinu og átta sig á því að hún er miklu meira sexy þegar hún er aðeins virðulegri, eins og hún hefur sýnt.
  5. Þá er þetta komið í bili, endilega kommentið eitthvað, haldið blogginu lífandi Hlæjandi

blog dagsins

Jæja, nú er maður byrjaður aftur í skóla, og notum kaffihléið til að blogga aðeins. Var að keppa í gær, endaði illa en ég entist þó ómeiddur út leikinn. Er nefnilega rétt að byrja í spriklinu eftir að rífa liðþófa fyrir mánuði síðan. Var reyndar nokkuð hræddur um að þetta tæki sig eitthvað upp en það gerðist blessunarlega ekki. Kepptum við meistara meistaranna og leikurinn endaði... jahh... 6-1. Fékk gult fyrir "kjaftbrúk" svokallað, fyrir það eitt að spyrja "ertu ekki að grínast?". Dómarinn var all svakalega hlutdrægur, ekki það að við hefðum nú líkast til tapað leiknum hvort sem er, en þeir þurftu ekki þessa hjálp. Nóg um það, búið og gert. Vona að fleiri fari að kíkja á síðuna og kommenta eitthvað, koma þessu bloggi af jörðinni!

Nú er nóg komið!

Gott fólk, þetta getur ekki viðgengist lengur!

"Að" og "Af" eru ekki eitt og sama orðið, og það er ekki flókið að nota þessi orð rétt! Í fyrsta lagi er alveg ótrúlegt magn af fólki sem "leitar af" einhverju eða einhverjum. Þetta er algerlega út úr kú nema viðkomandi standi á þessum einstaklingi. Þú getur ekki leitað af td. Magnúsi nema þú sitjir eða standir á honum. Þú getur hins vegar sagt "ég leita af" ef setningin er td.: "Ég leita af landi brott" eða "ég leita af mér allan grun".

Næsta dæmi(og þetta er af mbl.is, nota bene!): íslenska ungmennalandsliðið tapaði fyrir ítölum, 0-1. Svo í greininni stóð um markið, að þar hefði einhver leikmaður Fiorentina verið "af" verki. hvað í ósköpunum þýðir það? Mér er skapi næst að skilja það sem svo að hann hafi einn leikmanna ekki komið nálægt markaskoruninni. Hvernig fær maður (eða kona) með svona takmarkaða íslenskukunnáttu vinnu á stærsta fréttablaði landsins? Gera þeir virkilega engar kröfur um nám eða kunnáttu? Raunar er íþróttakunnátta sumra sem skrifa í íþróttahluta blaðsins svo léleg að það er ekki einu sinni hlægilegt! Fyrir um það bil ári síðan fann ég fimm staðreyndavillur í smáfréttunum, sem voru líklega um tuttuguogfimm talsins.

Nú ætla ég ekki að segja að ég sé einhver snillingur, en ég veit mínu viti þegar kemur að íþróttum, og finnst blóðugt að vera neyddur til að leita á erlend mið til að fá traustverðugar íþróttafréttir.

Þetta er komið nóg í bili, nú vona ég bara að greinaskilin skili sér betur en í fyrstu færslunni. Ég þoli ekki að lesa texta þar sem engin eru greinaskilin, þetta verður eins og grautur...


Norður Írland 0-3 Ísland

Hvað í ósköpunum gerðist hér? ég missti af meiri hluta leiksins en ég er ekki að trúa því að landsliðið hafi loksins skilað úrslitum í samræmi við getu! Til hamingju samlandar, og svo er bara að skella baununum á miðvikudaginn! 14-2 og ekkert annað!

Opnun blogsins

Jæja, þá er maður orðinn einn af "Þeim".

Þessum "Þeim" sem ég hélt að ég myndi aldrei tilheyra.

Þessum "Þeim" sem blogga!

Ástæðan er einföld: athyglissýki. Eða öllu heldur hef ég margt að segja sem ég vil að aðrir heyri. Eða lesi... Ég er búinn að fá yfir mig nóg af mörgu í þjóðfélaginu og er ekki feiminn við að tjá mig um það, hversu rangt sem ég svo sem kann að hafa fyrir mér.

Þessu landi er stjórnað af fólki sem ekki þorir að tjá sig nema eftir ákveðnum "flokksstefnum", eins og það er víst kallað. Ef viðkomandi hefur eina skoðun en Flokkurinn aðra er það undantekningarlaust Flokkurinn sem hefur yfirhöndina. Það versta við þetta er að hinn Almenni Þegn þjóðarinnar er kominn í sama farið. Það er ekki lengur hægt að tjá sig um eitt eða neitt því allir eru gersamlega skoðunarlausir, eða hreinlega vita ekki hvaða skoðun þeir hafa.

Besta dæmið um gunguskap íslenku alþýðunnar er án efa Íraksstríðið. Allir og mamma þeirra voru á móti þeirri ákvörðun Aðal og Auka (Dabba og Dóra, ef einhver skyldi ekki hafa fattað það) að styðja stríðið. Allir voru brjálaðir, allir voru hneykslaðir, allir höfðu skoðun.

Allir höfðu gleymt þeirri skoðun örskömmu seinna þegar að kosningum kom.

Hér á síðunni ætla ég að koma með mínar skoðanir, skoðanir sem ég kvika ekki frá. Skoðanir sem mér er annt um og skoðanir sem ég vona að fólk sjái sér fært að ræða. Ég er ekki einn af þeim sem halda að það sé bara ein hlið á hverju máli. Ef fólk er ekki sammála mér er ég ávallt til í að rökræða málið (það er að segja, alveg þangað til fólk er sammála mér).

Jæja, missti mig aðeins þarna, þetta var nú ekki full alvara... mest megnis ekki alla vegna.

Nú vona ég bara að fólk villist inn á þessa síðu og hafi nógu stórt bein í nefinu til að tjá sig, það er tími til kominn og það vita það allir!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband