Færsluflokkur: Bloggar

Nú er nóg komið!

Gott fólk, þetta getur ekki viðgengist lengur!

"Að" og "Af" eru ekki eitt og sama orðið, og það er ekki flókið að nota þessi orð rétt! Í fyrsta lagi er alveg ótrúlegt magn af fólki sem "leitar af" einhverju eða einhverjum. Þetta er algerlega út úr kú nema viðkomandi standi á þessum einstaklingi. Þú getur ekki leitað af td. Magnúsi nema þú sitjir eða standir á honum. Þú getur hins vegar sagt "ég leita af" ef setningin er td.: "Ég leita af landi brott" eða "ég leita af mér allan grun".

Næsta dæmi(og þetta er af mbl.is, nota bene!): íslenska ungmennalandsliðið tapaði fyrir ítölum, 0-1. Svo í greininni stóð um markið, að þar hefði einhver leikmaður Fiorentina verið "af" verki. hvað í ósköpunum þýðir það? Mér er skapi næst að skilja það sem svo að hann hafi einn leikmanna ekki komið nálægt markaskoruninni. Hvernig fær maður (eða kona) með svona takmarkaða íslenskukunnáttu vinnu á stærsta fréttablaði landsins? Gera þeir virkilega engar kröfur um nám eða kunnáttu? Raunar er íþróttakunnátta sumra sem skrifa í íþróttahluta blaðsins svo léleg að það er ekki einu sinni hlægilegt! Fyrir um það bil ári síðan fann ég fimm staðreyndavillur í smáfréttunum, sem voru líklega um tuttuguogfimm talsins.

Nú ætla ég ekki að segja að ég sé einhver snillingur, en ég veit mínu viti þegar kemur að íþróttum, og finnst blóðugt að vera neyddur til að leita á erlend mið til að fá traustverðugar íþróttafréttir.

Þetta er komið nóg í bili, nú vona ég bara að greinaskilin skili sér betur en í fyrstu færslunni. Ég þoli ekki að lesa texta þar sem engin eru greinaskilin, þetta verður eins og grautur...


Opnun blogsins

Jæja, þá er maður orðinn einn af "Þeim".

Þessum "Þeim" sem ég hélt að ég myndi aldrei tilheyra.

Þessum "Þeim" sem blogga!

Ástæðan er einföld: athyglissýki. Eða öllu heldur hef ég margt að segja sem ég vil að aðrir heyri. Eða lesi... Ég er búinn að fá yfir mig nóg af mörgu í þjóðfélaginu og er ekki feiminn við að tjá mig um það, hversu rangt sem ég svo sem kann að hafa fyrir mér.

Þessu landi er stjórnað af fólki sem ekki þorir að tjá sig nema eftir ákveðnum "flokksstefnum", eins og það er víst kallað. Ef viðkomandi hefur eina skoðun en Flokkurinn aðra er það undantekningarlaust Flokkurinn sem hefur yfirhöndina. Það versta við þetta er að hinn Almenni Þegn þjóðarinnar er kominn í sama farið. Það er ekki lengur hægt að tjá sig um eitt eða neitt því allir eru gersamlega skoðunarlausir, eða hreinlega vita ekki hvaða skoðun þeir hafa.

Besta dæmið um gunguskap íslenku alþýðunnar er án efa Íraksstríðið. Allir og mamma þeirra voru á móti þeirri ákvörðun Aðal og Auka (Dabba og Dóra, ef einhver skyldi ekki hafa fattað það) að styðja stríðið. Allir voru brjálaðir, allir voru hneykslaðir, allir höfðu skoðun.

Allir höfðu gleymt þeirri skoðun örskömmu seinna þegar að kosningum kom.

Hér á síðunni ætla ég að koma með mínar skoðanir, skoðanir sem ég kvika ekki frá. Skoðanir sem mér er annt um og skoðanir sem ég vona að fólk sjái sér fært að ræða. Ég er ekki einn af þeim sem halda að það sé bara ein hlið á hverju máli. Ef fólk er ekki sammála mér er ég ávallt til í að rökræða málið (það er að segja, alveg þangað til fólk er sammála mér).

Jæja, missti mig aðeins þarna, þetta var nú ekki full alvara... mest megnis ekki alla vegna.

Nú vona ég bara að fólk villist inn á þessa síðu og hafi nógu stórt bein í nefinu til að tjá sig, það er tími til kominn og það vita það allir!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband